27. apríl. 2020

8 sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna

Íslendingar fá landið útaf fyrir sig í sumar og framundan er stærsta ferðamannasumar Íslendinga á Íslandi. Rannsóknir sýna að í fyrra ferðuðust 85% Íslendinga um landið en til samanburðar voru 90% af þeim sem ferðuðust um landið á metárinu 2010. Fjöldi ferða var að meðaltali 6,7 og þeir gistu í 14 nætur að meðaltali í fyrra. Meðalfjöldi utanlandsferða var 2,6 og meðalfjöldi gistinótta 19.

Fyrir hótel og gististaði ásamt öðrum í ferðaþjónustu er því mikið verk fyrir höndum. Hér á eftir eru 8 tækifæri ti sóknar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem eiga sér von og mega því alls ekki gefast upp!

1. Útlendingar eru ólíkir Íslendingum

Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að endurstaðfæra boðið sitt fyrir Íslendinga því þarfir þeirra eru ólíkar erlendum ferðamönnum. Íslendingar hafa flestir ferðast um landið og hafa lítinn áhuga á Lundastyttum. Grunnvaran getur verið óbreytt (t.d. gisting eða ganga) en það gæti þurft að endurmóta margt í kringum vöruna. 

Hótel getur t.a.m. sagt söguna á bakvið vörurnar, hráefnin eða þjónustuna. Tengt við nærumhverfið sitt og sveitina. Kartöflur eru til að mynda bara kartöflur þar til við heyrum söguna af þeim fjórum ættliðum sem rækta þær, þeirra gleði og sorg, og hvernig sú saga tvinnast inn í sögu samfélagsins.

2. Vertu allt fyrir einhverja, ekki eitthvað fyrir alla

Hótel hafa til þessa verið áningastaðir, en þurfa nú að verða áfangastaðir. Öll ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að búa til og skapa eftirminnilega upplifun sem fólk segir frá og deilir á samfélagsmiðlum. Munum að ljósmyndir frá ánægðum viðskiptavinum á samfélagsmiðlum eru besta og ódýrasta auglýsingin. Nú þurfa því öll fyrirtæki að spyrja: hvað er einstakt við boðið okkar? Nú þurfa því öll ferðaþjónustufyrirtæki að skilgreina boðið sitt svo þau verði allt fyrir einhverja, en ekki eitthvað fyrir alla. Við útilokum ekki aðra með því heldur búum við til skýra aðgreiningu svo að það verður í kjölfarið aðlaðandi í augum annarra. Þannig sköpum við sterkustu aðgreininguna og margföldum líkur á því að viðskiptavinir segi öðrum frá.

Það er auðvelt að ofhugsa þennan þátt en þegar stefnan er skýr er oft auðvelt að aðlaga starfsemina án kostnaðar. Ennfremur fara svo allar litlar og stórar ákvarðanir (sem þarft að taka hvort eð er) að leiða fyrirtækið í rétta átt!

3. Sófinn er óvinurinn 

Verkefnið nú er að fá sem flesta út á land. Verkefnið er því tvíþætt: fá þá sem núþegar ferðast til að koma oftar og hins vegar að sannfæra þá sem ekkert ferðast (15%) til að fara af sófanum. Hótel þurfa núna að skilgreina samkeppnina sem önnur hótel og gististaði, tjaldvagna, fellihýsi, tjöld og sófann! Til að sækja fram þarf því að aðlaga boðið með tilliti til þeirra verkefna sem sem tjalda og vagnafólkið vill leysa.  

Verkefnið er því að koma fleirum af sófanum og oftar og út í ævintýri um landið! Gefa fólki ástæðu til að koma, ástæðu umfram kjarnavöruna, Til dæmis með því að sannfæra pör eða vini til að ferðast, sem ferðuðust etv. eingöngu með fjölskyldunni fyrir. 

4. Hugsa eins og smávöruverslun

Matsölustaðir, bílasölur og smávöruverslanir vita að því fleiri fyrirtæki sem starfa á svæðinu þeirra, þeim mun fleira fólk dregur svæðið að og viðskiptin hjá öllum aukast yfirleitt. Markaðsstarf allra dregur þannig marga að og úr verður jákvæð samvirkni svo allir selja meira.  Það er því mikilvægt að það sé samhljómur í skilaboðum þeirra sem vilja sækja fólk inná ákveðin svæði á landinu.

Bændur og aðrir í nærsamfélaginu geta einnig verið uppspretta ævintýra, bæði með því að bjóða fólki heim en einnig með því að selja vörur inná hótelin og ferðaþjónustustaðina sem styður við upplifunina. 

5. Reyna lækka verð og selja meira

Það sem Íslendingar kvarta mest yfir er verðlagning á landsbyggðinni. Þetta verður sérstaklega mikil áskorun nú í sumar. Tækifærið hjá flestum er því að lækka grunnverðið og selja svo fjölbreyttar virðisaukandi þjónustur sem styðja við heildarupplifunina. Ennfremur er hægt að auka skynjað virði viðskiptavina sem minnkar pressuna á að lækka verð etv. eins mikið. Margar leiðir eru færar, bæta framsetningu, útlit, þjónustu og umbúðir. 

Stór hluti af virðinu við að kaupa mat á veitingastað er umhverfið, framsetningin og þjónustan. Upplifunin af því að borða á staðnum skiptir oft mun meira máli en maturinn sjálfur. Sumir veitingastaðir senda nú mat heim í bréfpokum og álpappir, aðrir á bökkum með glærum plastlokum svo framsetningin er nákvæmlega eins disknum á veitingastaðnum. Sama varan, á sama verði, í þessum tveim framsetningum, getur þótt rándýr í álpappir en hagstæð með góðri framsetningu.

Þegar hótel endurstaðfærir sig sem ævintýri eða upplifun fyrir viðskiptavini breytist margt. Hótel á landsbyggðinni hóf að leigja kíki og selja verkefnabók sem hvatti fjölskyldur til að fara út í náttúruna og finna og mynda  fuglana í bókinni. Myndirnar voru svo sýndar á skjá yfir kvöldmatnum á hótelinu sem engin fjölskylda vildi missa af.  Fyrir annað hótel fór vínsmökkunin fyrir fullorðna fólkið ásamt fyrirlestri um sveitina að slá í gegn á meðan unglingar í bænum stýrðu leikjaklúbbi fyrir krakkana sem tóku m.a. þátt í Íslandsmeistaramótinu í Olsen Olsen.

6. Vinna sem nýtist þegar heimurinn opnast

Ef ferðaþjónustufyrirtæki endurstaðfæra boðið sitt: ákveða og móta söguna sem þau vilja segja og styrkja þannig upplifun viðskiptavina hefur það mikinn ábata í för með sér. Ánægja viðskiptavina eykst og markaðsstarf- og hliðarsala verður auðveldari o.s.frv. Ennfremur munu þau vera með mun sterkara boð þegar ferðalög á milli landa hefjast aftur.

Það mun taka tíma fyrir eftirspurnina að ná svipuðum hæðum og fyrir Covid en það gerir það enn mikilvægara að vera með einstaka vöru og bjóða einstaka upplifun. 

7. Hvað vilja Íslendingar?

Sund, jarðböð, söfn, sýningar, leikhús, tónleikar og bæjarhátíðir eru efstar á lista yfir það sem Íslendingar keyptu á ferðalögum innanlands í fyrra. Ljóst er að bæjarhátíðir og stórar samkomur verða með öðru sniði í sumar. Fyrirtækin sjálf bera því meiri ábyrgð en áður á að fólk hafi ástæðu til að koma.

Þó við viljum síst af öllu bera okkur saman við ferðamannastaði á Spáni þá eru Íslendingar þar að leysa mörg þau sömu verkefni og þeir gera þegar þeir ferðast um Ísland. Lausnirnar til að leysa verkefnin  erlendis eru hins vegar ólíkar þeim keyptar eru á Íslandi. Grunnurinn er hins vegar að við skiljum þessi verkefni. Við þurfum að skilja íslenska ferðamenn til að greina hvernig við getum hjálpað þeim að gera fríin eftirminnilegri. Ef það tekst verður mun auðveldar að skapa og selja þeim virðisaukandi þjónustur.

8. Sögur, sögur, sögur

Þeir sem hafa farið í göngu um miðbæinn með Stuðmanninum Jakobi Frímanni upplifa svolítið merkilegt. Umhverfið sem við teljum okkur þekkja út og inn breytist. Þetta venjulega verður óvenjulegt. Á göngunni lærir maður sögu fólksins í húsunum sem litar sögu húsanna sjálfra. Litla ómerkilega rauða húsið, sem er aðeins farið að láta sjá á, fær nú allt aðra merkingu og verð stórmerkilegt umvafið sögunni.

Ferðaþjónustan þarf að nálgast Íslendinga í sumar á sama hátt. Við verðum að gefa þeim nýja ástæðu til að sjá og upplifa sömu staðina og láta þá læra og upplifa eitthvað nýtt.

Þó við höfum aðeins graslendur í bakgarðinum getum við gert þær áhugaverðar með sögum af fólkinu sem þar fór áður. Sögum af bardögum, ástum, glæpum eða sigrum!  Tækifærið fyrir flesta er í þessu óáþreifanlega, náttúran og landið okkar sér um það áþreifanlega.

Höfundur: Guðmundur Arnar Guðmundsson

Allar upplýsingar um ráðgjöf Akademias má finna hér.

 

Til baka