29. apríl. 2020

Stjórn sem vinnur í krísu – 7 ástæður

Sjaldan reynir eins á stjórnir félaga og í krísu. Nú er krísa og þá mun koma í ljós hversu öflugar stjórnir félaga eru. Stjórnarhættir hafa verið í verulegri framþróun á Íslandi sérstaklega þegar kemur að skilningi á áhættustjórnun og að velja viðeigandi þekkingu og hæfni inn í stjórnir. Það er hins vegar langt í land að stjórnarstarf á Íslandi verði eins og best verður á kosið og vinnan við að efla stjórnarstarfið er stöðug áskorun og vinnunni er aldrei lokið. Ætíð má gera betur þegar kemur að góðum stjórnarháttum.

Rannsóknir hafa sýnt að stjórnir verða miklu virkari en ella í krísuástandi. Þá reynir á að stjórnir geti verið stjórnendum félagsins innan handar við að takast á við áskoranir sem krefjast þess að ákvarðanir eru teknar hratt út frá takmörkuðum upplýsingum. Þá er mikilvægt að stjórnin skilji áhættustjórnun og kunni að forgangsraða og að sú þekking og hæfni sem er innan stjórnarinnar sé viðeigandi svo að stjórnin geti verið hluti af því krísuteymi sem þarf að vera til staðar til að vinna hratt og ákveðið. Þá er oft þörf fyrir frumlegar lausnir og nýjar nálganir þar sem hefðbundin aðferðafræði og úrlausnir eiga ekki lengur við. Þetta er prófsteinn fyrir allar stjórnir.

Fyrir sjö árum ákvað ég að búa til mjög nýstárlega þjálfun fyrir stjórnarmenn fyrirtækja og stofnana. Aðferðafræðin, umgjörðin og áherslurnar voru talsvert aðrar en áður höfðu sést hér á landi. Markmiðið var að þjálfa stjórnarmenn sem myndu skilja hlutverk sitt og stjórnarinnar mun betur og gætu verið leiðtogar fyrir breytingar. Við kölluðum þjálfunina Viðurkenndir stjórnarmenn og það er mín einlæga skoðun að það ætti ekki að vera til sú stjórn í meðalstórum og stærri fyrirtækjum sem hefur færri en einn Viðurkenndan stjórnarmann. Þetta er sama krafa og krafan um fjármálalæsi í stjórn. Ávinningurinn fyrir stjórnarstarfið er mikill.

Í tilefni þess að við hjá Akademias eru að kynna haustprógrammið fyrir Viðurkennda stjórnarmenn þá vildi ég nefna nokkur dæmi um af hverju ég held að þessi þjálfun Viðurkenndra stjórnarmanna sé mikilvæg:  

  1. Tilgangur

Flestir stjórnarmenn geta vitnað í lög um hlutverk stjórna þegar spurt er um tilgang stjórnar. Þeir skilja hins vegar ekki raunverulegan tilgang eða geta gagnrýnt hugmynd um tilgang að nokkru viti.

Viðurkenndir stjórnarmenn þekkja hins vegar ólíkar kenningar og sögu stjórnarhátta og skilja þar af leiðandi af hverju hlutverkið er skilgreint með þeim hætti sem gert er. Það sem meira er, viðurkenndir stjórnarmenn geta séð tilganginn í ljósi annarra kenninga og þar af leiðandi lagt til og gert grundvallarbreytingar á starfi stjórnarinnar.

  1. Aðferðafræði

Flestir stjórnarmenn hafa ákveðnar hugmyndir um það hvernig stjórnarstarf á að fara fram. Allt of oft eru þeir fastir í einhverju normi sem er háð venjum og reglum.

Viðurkenndir stjórnarmenn eru þjálfaðir í að gagnrýna normið og geta hannað stjórnarstarfið með öðrum hætti sem hentar þeim aðstæðum sem fyrirtækið finnur sig í.

  1. Hlutverk

Flestir stjórnarmenn eru meðvitaðir um hlutverk sitt og ábyrgð eins og áhersla er lögð á í lögum og leiðbeiningum um stjórnarhætti.

Viðurkenndi stjórnarmenn skilja að þeir verða að hafa eitthvað fram að færa og bera ábyrgð á ákvörðunum stjórnarinnar, kunna að spyrja spurninga, þekkja grundvallarhugmyndir í stefnumörkun og verðmætasköpun og skilja mikilvægi sjálfstæðis stjórnarmanns og á hvaða forsendum hann er í stjórninni.

  1. Samstarf

Flestir stjórnarmenn átta sig á að gott samstarf innan stjórnar eykur líkur á árangri. Þeir kunna hins vegar sjaldnast að gera slíkt hópstarf skilvirkt og markvirkt.

Viðurkenndir stjórnarmenn kunna að móta samstarf stjórnar og meta framlag einstakra stjórnarmanna. Þeir geta skipulagt vinnuferla og ferli ákvarðanatöku sem tekur jafnframt mið af siðfræði og sjálfbærni.

  1. Stefnumið

Flestir stjórnarmenn segjast skilja stefnumótun og geta jafnvel vitnað í hugmyndir um sterkar auðlindir og staðsetningu á markaði. Í flestum tilvikum er hins vegar óljóst hvernig stjórnir hafa áhrif á stefnu fyrirtækis.

Viðurkenndir stjórnarmenn átta sig á að stjórnin getur haft mismunandi hlutverk í stefnumótun fyrirtækis og þekkja helstu kenningar og aðferðir sem eru grundvöllur fyrir umræðu um stefnumiðaða stjórnun.  

  1. Tími og þekking

Flestir stjórnarmenn átta sig á að tímaskortur og þekking á viðfangsefninu getur haft áhrif á stjórnarstarfið. Allt of margir taka hins vegar að sér stjórnarstörf þegar þeir hafa hvorki tíma né þekkingu í verkefnið.

Viðurkenndir stjórnarmenn meta hvort þeir hafi tíma og þekkingu til þess að taka að sér stjórnarstarf og geta skipulagt stjórnarstarf með það að markmiði að nýta tímann og skapa þekkingu innan stjórnarinnar. 

  1. Yfirsýn

Flestir stjórnarmenn átta sig á að það er mikilvægt að efla góða stjórnarhætti en skilja einstaka þætti frekar en heildina.

Viðurkenndir stjórnarmenn hafa fengið einstaka þjálfun fyrir mjög einstakt starf sem hefðbundin menntun gefur þeim einungis takmarkaða innsýn. Viðurkenndir stjórnarmenn öðlast ákveðna yfirsýn og geta metið hvernig stjórn virkar í stærra skipulagi, tilgang hennar og markmið og hvernig innra starf og ytri þættir hafa áhrif.

Allir sem hafa farið í gegnum þjálfun sem Viðurkenndir stjórnarmenn, og þeir eru nú á annað hundrað talsins, mæla með því fyrir aðra og allir segja að námið hafi fullkomlega staðist væntingar og meiri hluti segir ennfremur að námið sé langt umfram væntingar.

Algengasta ástæðan fyrir því að fólk veigrar sér við að taka Viðurkennda stjórnarmenn er tímaskortur. Mitt svar við því er að þá hefur fólk ekki heldur erindi sem erfiði að sitja í stjórnum fyrirtækja. Þetta er eins og að segja að maður hafi ekki tíma fyrir tímastjórnun.

Núverandi aðstæður eru prófsteinn fyrir stjórnendur, einstaka stjórnarmenn og stjórnir. Það leikur enginn vafi á að betur þjálfaðar stjórnir eru líklegri til þess að geta verið þátttakendur í að takast á við þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir núna. Taktu okkar áskorun um að efla góða stjórnarhætti og komdu í þjálfun með það markmið að verða Viðurkenndur stjórnarmaður.

Höfundur: Dr. Eyþór Ívar Jónsson (eythor@akademias.is), umsjónarmaður fyrir Viðurkenndir stjórnarmenn.

 

Til baka