Leiðbeinendur
Miriam Petra Ómarsdóttir Awad
Miriam Petra Ómarsdóttir Awad hefur verið virk í baráttunni gegn fordómum á Íslandi í hartnær áratug og var tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í flokknum Atlaga gegn fordómum, árið 2015.
Árið 2020 útskrifaðist Miriam með MA í hnattrænum fræðum, þar sem áherslusviðið var mannfræði og vann hún lokarannsókn sína, um áhrif fordóma á sjálfsmyndir íslenskra kvenna með erlendan bakgrunn, undir leiðsögn Kristínar Loftsdóttur prófessors.
Frá byrjun ársins 2021 til dagsins í dag hefur Miriam haldið fræðsluerindi fyrir hátt í 1.500 börn, unglinga og fullorðna í skólum og æskulýðsstarfi. Upphaflega hélt Miriam fræðsluerindin ásamt Chanel Björk Sturludóttur, stofnanda Mannflórunnar, en frá haustinu 2022 hefur Miriam haldið fræðsluerindi á eigin vegum.
Miriam hefur haldið vinnustofur fyrir jafningjafræðara, æskulýðsstarfsfólk og stjórnendur á skóla og frístundasviði.
Miriam er inngildingar- og fjölbreytileikafulltrúi Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og hefur í því starfi farið fyrir teymi landskrifstofunnar um mótun stefnu og aðgerðaráætlunar í inngildandi starfsemi. Hún hefur einnig haldið fyrirlestra fyrir samstarfsfólk í evrópskum áætlunum um inngildingu og fordóma, meðal annars á ráðstefnunni Learning by leaving sem haldin var á Mallorca í október 2022 og fyrir æskulýðsstarfsfólk víðsvegar um Evrópu á fyrirlestrarröð á vegum SALTO Inclusion & Diversity.